Ráðgjöf á forsendum jákvæðrar sálfræði (positive psychology coaching)

Umræða um andlega heilsu snýst oft um vanlíðan og vandamál - að greina það sem er að og finna leiðir til þess að draga úr einkennum vandans, t.d. að draga úr einkennum þunglyndis, kvíða, fælni og svo framvegis. Það á fyllilega rétt á sér en það eitt að draga úr vanlíðan stuðlar ekki sjálfkrafa að því að okkur líði vel og blómstrum í lífinu. Það eru aðrir þættir sem snúa að því að elfa andlega heilsu með því að auka vellíðan og hamingju.

Rannsóknir á andlegri vellíðan og hamingju hafa leitt í ljós að jákvæð tengsl eru milli hamingju og ákveðinna eiginleika eins og þakklætis, núvitundar, bjartsýni, góðvildar og sjálfsumhyggju og að þegar við ræktum þessa eiginleika með okkur, getur það aukið andlega vellíðan okkar og sátt með lífið. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að það að greina helstu styrkleika okkar og finna leiðir til þess að nýta þá í daglegu lífi getur aukið vellíðan og hjálpað okkur að finna fyrir meiri orku og tilgangi. Innan jákvæðrar sálfræði hafa verið þróaðar ýmisskonar aðferðir sem miða að því að kalla fram jákvæðar tilfinningar og hjálpa fólki að rækta með sér eiginleika sem stuðla að aukinni vellíðan. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þessar aðferðir virka og leiða til aukinnar vellíðanar óháð því hvernig fólki líður fyrir en margar þeirra hafa líka reynst gagnlegar við að draga úr vanlíðan eða einkennum þunglyndis.  

Ráðgjöf á forsendum jákvæðrar sálfræði (e. positive psychology coaching) snýst um að miðla þessum aðferðum til einstaklinga og styðja þá í að nýta sér þessar aðferðir í daglegu lífi. Ráðgjöfin snýst líka um að hjálpa einstaklingum að átta sig á helstu lífsgildum sínum, hvert þeir vilja stefna og ræða mögulegar leiðir til að nálgast það.

 

Fyrir hverja er svona ráðgjöf?

Þar sem markmiðið með ráðgjöfinni er að stuðla að andlegri vellíðan og heilbrigði einstaklinga, hentar hún öllum sem vilja vinna að því með nálgun jákvæðrar sálfræði óháð því hvort það sé ákveðinn vandi og vanlíðan til staðar eða ekki. Ég hef sérhæft mig í félags- og heilsusálfræði annars vegar og jákvæðri sálfræði hins vegar en ekki í klínískri sálfræði, þannig að ég vinn ekki með greiningar á geðrænum röskunum og meðhöndlun þeirra. Það eru þó allir velkomnir hvort sem þeir hafa fengið greiningu eða ekki. 

 

Hvernig fer ráðgjöfin fram?

Eins og er sinni ég aðeins ráðgjöf í gegnum netið (Skype eða Facebook videochat). Yfirleitt hitti ég fólk á eins til tveggja vikna fresti í nokkur skipti eftir þörfum og vilja skjólstæðingsins.

Sendið tölvupóst á netfangið helga@andlegheilsa.is til að bóka tíma.

Verð

1 stakur tími - 12.000kr
Hver tími er 60 mínútur

 

Menntun og reynsla ráðgjafa

Ég er með bachelor-gráðu í sálfræði, master of science-gráðu í félags- og heilsusálfræði og diplomagráðu á mastersstigi í jákvæðri sálfræði. Ég hef lært ráðgjöf á forsendum jákvæðrar sálfræði eða positive psychology coaching bæði sem hluta af mastersnáminu auk þess að sitja námskeið um þessa tegund ráðgjafar hjá EHÍ og hjá Wholebeing Institute. Þar að auki er ég núvitundarkennari og hef aflað mér þekkingar á sjálfsumhyggju (self-compassion). Ég hef starfað við ráðgjöf, námskeiðahald og fræðslu um andlega heilsu og vellíðan síðan haustið 2015. Lesa má nánar um mig og jákvæða sálfræði hér.