Menntun og reynsla

Ég er með BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands, Master of Science gráðu í félags- og heilsusálfræði frá Maastricht University og diplomagráðu á mastersstigi í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Ég hef fengið þjálfun í ráðgjöf á forsendum jákvæðrar sálfræði (positive psychology coacing) við Maastricht University, Endurmenntun Háskóla Íslands og við Wholebeing Institiute. Einnig er ég með CMA-vottaða núvitundar kennaraþjálfun (mindfulness teacher training) frá Awareness is Freedom. 

Ég starfa við námskeiðahald á ýmsum stöðum, t.d. hjá Grettistaki (endurhæfingarúrræði á vegum Reykjavíkurborgar) og Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu. Ég sinni einnig ráðgjöf hjá Geðhjálp auk þess að sitja í fagráði hjá embætti landlæknis um geðrækt. Þar að auki sinni ég aðstoðarkennslu í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun háskóla Íslands.

 

Hvers vegna vinn ég með andlega heilsu?

Unglingsárin og árin í kringum tvítugt voru mér erfið. Ýmsar aðstæður í lífi mínu ollu því að mér leið illa, ég fann fyrir kvíða, svartsýni og mikilli andlegri vanlíðan. Ég notaði ýmsar aðferðir, aðallega ómeðvitað til þess að deyfa sársaukann en þær virkuðu illa og ollu mér oft enn dýpri vanlíðan. Mér gekk illa í námi á þessum tíma, ég féll og hætti loks námi 19 ára gömul án þess að útskrifast. Ég var á slæmum stað í lífinu og þráði að skilja af hverju mér leið svona illa og að finna leiðir til þess líða betur og ganga betur í lífinu. Næstu ár leitaði ég ýmissa leiða til þess að hlúa að mér og heilsu minni og mér fór smám saman að líða betur og ganga betur með það sem ég tók mér fyrir hendur. 

Ég lauk stúdentsprófi eftir nokkurra ára fjarnám með vinnu og hóf í kjölfarið nám í sálfræði við Háskóla Íslands. Mig langaði til þess að skilja tilfinningar mínar betur og læra leiðir til að auka vellíðan mína og efla andlega heilsu. Mig langaði til að líða vel og fúnkera vel í lífinu en líka til þess að hjálpa öðrum að líða vel og blómstra í sínu lífi. Námið var áhugavert og ég lærði mikið um mannlega hegðun og tilfinningar, einkenni geðrænna sjúkdóma og aðferðir til þess að draga úr vanlíðan af völdum þeirra. Ég lærði hins vegar ekkert um andlega heilsu, einkenni hennar eða leiðir til þess að efla hana og auka andlega vellíðan. 

kleppur.001.jpeg

Eftir að námi lauk vann ég á Kleppi í nokkur ár en sú reynsla hafði mikil áhrif á mig. Meðal þess sem ég áttaði mig fljótlega á var að flestir skjólstæðingarnir sem þar dvöldu áttu sér sögu um mikil áföll eða erfiðleika í æsku og ég velti því oft fyrir mér hvort staða þeirra hefði verið önnur ef þeir hefðu alist upp við betri aðstæður. Ég áttaði mig á að vísindin og kenningarnar á bak við geðsjúkdóma og einkenni þeirra eru mun óljósari og vanþróaðri en ég hafði haldið og að það að draga úr einkennum geðrænna sjúkdóma, eykur ekki alltaf andlega vellíðan og lífsgæði fólks. Að lokum áttaði ég mig á því að það besta sem ég gat gert fyrir skjólstæðingana var að tengjast þeim, hlusta á sögu þeirra og sýna þeim þá hlýju, samkennd og skilning sem ég fann gagnvart þeim. Ég fór að efast um gagnsemi þess að einblína á sjúkdómsgreiningar og einkenni vandans og ég vildi finna leiðir til þess að vinna sérstaklega með andlega heilsu fólks en ekki sjúkdóma. Ég hætti á Kleppi og hélt til Hollands og tók þar master í félags- og heilsusálfræði við Maastricht University. Þar kynntist ég jákvæðri sálfræði og tók í kjölfarið diplómagráðu í henni við EHÍ. Eftir það hef ég sótt fjölda námskeiða og ráðstefna um jákvæða sálfræði, núvitund, sjálfsumhyggju og andlega heilsu. 

 

Um andlega heilsu og jákvæða sálfræði

Jákvæð sálfræði var formlega stofnuð sem fræðigrein í kringum aldamótin 2000 með það að markmiði að efla rannsóknir á hamingju og andlegri vellíðan en upphafsmenn hennar gagnrýndu ofuráherslu sálfræðinnar á geðsjúkdóma og andlega vanlíðan. Hlutverk sálfræðinnar var upphaflega að afla þekkingar um leiðir til að draga úr geðrænum vanda fólks, hlúa að snilligáfu og um leiðir til að bæta lífsgæði hins almenna borgara. Eftir seinni heimstyrjöld færðist þó megin áhersla sálfræðinnar á að draga úr geðrænum vanda fólks og minna fór fyrir rannsóknum á öðrum sviðum mannlegs lífs. Tilgangurinn með jákvæðri sálfræði er að koma á auknu jafnvægi þannig að þekking okkar á vellíðan og því sem einkennir gott líf verði til jafns á við þekkingu okkar um vanlíðan og leiðir til að draga úr henni. Það að draga úr vanlíðan stuðlar ekki sjálfkrafa að því að okkur líði vel og blómstrum í lífinu. Það eru aðrir þættir sem snúa að því að efla andlega heilsu og hamingju. 

Rannsóknir á andlegri vellíðan og hamingju hafa leitt í ljós að jákvæð tengsl eru milli aukinnar hamingju og ákveðinna eiginleika eins og þakklætis, núvitundar, bjartsýni og velvildar og að þegar við ræktum þessa eiginleika með okkur, getur það aukið andlega vellíðan okkar og sátt með lífið. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að það að greina helstu styrkleika okkar og finna leiðir til þess að nýta þá í daglegu lífi getur aukið vellíðan og hjálpað okkur að finna fyrir meiri tilgangi. 

Út frá þessum rannsóknum hafa verið þróaðar ýmsar æfingar sem einstaklingar geta beitt markvisst til að rækta með sér ofantalda eiginleika. Rannsóknir á áhrifum æfinganna hafa leitt í ljós að þær eru ekki aðeins gagnlegar við að auka andlega vellíðan, heldur hafa margar þeirra líka reynst gagnlegar við að draga úr einkennum þunglyndis. Það er ástríða mín að miðla þessum aðferðum svo þær megi gagnast sem flestum.