af hverju jákvæð sálfræði?
Unglingsárin og árin í kringum tvítugt voru mér erfið. Ýmsar aðstæður í lífi mínu ollu því að mér leið illa, ég fann fyrir kvíða, svartsýni og mikilli andlegri vanlíðan. Ég notaði ýmsar aðferðir, aðallega ómeðvitað til þess að deifa sársaukann en þær virkuðu illa og ollu mér oft enn dýpri vanlíðan. Mér gekk illa í námi á þessum tíma, ég féll og hætti loks námi 19 ára gömul án þess að útskrifast. Ég var á slæmum stað í lífinu og þráði að skilja af hverju mér leið svona illa og að finna leiðir til þess líða betur og ganga betur í lífinu. Næstu ár leitaði ég ýmissa leiða til þess að hlúa að mér og heilsu minni og mér fór smám saman að líða betur og ganga betur með það sem ég tók mér fyrir hendur.
Ég lauk stúdentsprófi eftir nokkurra ára fjarnám með vinnu og hóf í kjölfarið nám í sálfræði við Háskóla Íslands. Mig langaði til þess að skilja tilfinningar betur og læra leiðir sem gætu leitt til aukinnar vellíðunar og eflingu andlegrar heilsu. Námið var áhugavert og ég lærði mikið um mannlega hegðun og tilfinningar, einkenni andlegra sjúkdóma og aðferðir til þess að draga úr vanlíðan af völdum þeirra. Ég lærði hins vegar ekkert um andlega heilsu, einkenni hennar eða leiðir til þess að efla hana og auka andlega vellíðan.
Eftir að námi lauk vann ég á Kleppi í nokkur ár en sú reynsla hafði mikil áhrif á mig. Meðal þess sem ég áttaði mig fljótlega á var að flestir skjólstæðingarnir sem þar dvöldu áttu sér sögu um mikil áföll eða erfiðleika í æsku og ég velti því oft fyrir mér hvort staða þeirra hefði verið önnur ef þeir hefðu alist upp við betri aðstæður. Ég áttaði mig á að vísindin og kenningarnar á bak við geðsjúkdóma og einkenni þeirra eru mun óljósari og vanþróaðri en ég hafði haldið og að það að draga úr einkennum andlegra sjúkdóma, eykur ekki endilega andlega vellíðan og lífsgæði fólks. Að lokum áttaði ég mig á því að það besta sem ég gat gert fyrir skjólstæðingana var að tengjast þeim, hlusta á sögu þeirra og sýna þeim þá hlýju, samkennd og skilning sem ég fann gagnvart þeim. Ég fór að efast um gagnsemi þess að einblína á sjúkdómsgreiningar og einkenni vandans og ég vildi finna leiðir til þess að vinna sérstaklega með andlega heilsu fólks en ekki andlega sjúkdóma. Ég hætti á Kleppi og hélt til Hollands og tók þar master í félags- og heilsusálfræði við Maastricht University. Þar kynntist ég jákvæðri sálfræði og tók í kjölfarið diplomagráðu í henni við EHÍ.
Í dag sinni ég ástríðu minni og miðla fróðleik um leiðir til þess að hlúa að sjálfum sér og andlegri heilsu sinni. Ég held fyrirlestra, námskeið og vinnustofur um andlega vellíðan og veiti persónulega ráðgjöf um leiðir til þess að hlúa að henni. Auk þess vinn ég að þróun Happ Apps en það er smáforrit sem heldur utan um æfingar sem notendur geta gert til þess að auka andlega vellíðan sína. Hægt er að lesa nánar um Happ App hér og þá þjónustu sem ég býð upp á hér.