Aukin vellíðan

 
 

Markmið

Rannsóknir á hamingju og vellíðan benda til þess að við getum haft veruleg áhrif á líðan okkar og heilsu með ýmsum aðferðum eins og að hreyfa okkur, hlúa að félagslegum tengslum, huga að styrkleikum okkar og rækta með okkur eiginleika eins og þakklæti, góðvild og núvitund. 

Það er markmið okkar með þessu námskeiði að miðla nokkrum þessara aðferða til þín og að hjálpa þér að beita þeim þér til heilsubóta. 

 

UPPBYGGING

Námskeiðið byggir á fimm leiðum að vellíðan og skiptist í fimm kennslustundir, eina fyrir hverja leið. Mælt er með því að taka námskeiðið á fimm vikum og fara í gegnum eina skennslustund í einu.  Í hverri kennslustund er kynnt efni dagsins, talað um ávinning þess að tileinka sér viðkomandi aðferðir og fjallað um leiðir til að tileinka sér þær. Hver kennslustund samanstedur af nokkrum stuttum myndböndum, verkefnum og hugleiðsluæfingum. Gert er ráð fyrir að það taki um 90-120 mínútur að fara í gegnum efni hverrar kennslustundar með æfingunum. Gefðu þér góðan tíma í þetta og leyfðu þér að melta efnið vel og gera allar æfingarnar í vinnubókinni. Það hjálpar þér að fá sem mest út úr námskeiðinu. 

 

Vísindin

Árið 2008 fól vinnuhópur á vegum bresku ríkisstjórnarinnar (Foresight‘s Mental Capital and Wellbeing Project) samtökum sem nefnast New Economic Foundation að fara yfir rannsóknir yfir 400 rannsakenda víða um heim í von um að finna gagnreyndar aðgerðir til þess að bæta líðan og auka hamingju fólks í daglegu lífi.

Fimm leiðir að vellíðan er afrakstur þessarar vinnu, en þær byggja á niðurstöðum vandaðra rannsókna víða að úr veröldinni, og fela í sér einföld skref til þess að efla lífsánægju og vellíðan alla ævina.

Rannsóknir sýna að jafnvel lítilsháttar aukning vellíðanar og lífshamingju getur átt þátt í að draga úr ákveðnum geðrænum vandamálum og hjálpað fólki til þess að blómstra í lífinu.

Nánar má lesa um verkefnið og uppruna þess hér:
http://neweconomics.org/2008/10/five-ways-to-wellbeing-the-evidence/