Efni námskeiðs
Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um samspil sjálfsumhyggju (self-compassion) og þrautseigju og læra aðferðir sem hægt er að beita til þess að rækta með sér aukna umhyggju í eigin garð. Fjallað verður um muninn á sjálfsvorkunn annars vegar og umhyggju í eigin garð hins vegar og ólík áhrif þeirra á hegðun okkar, hugsanir og líðan. Einnig fjöllum við um ólík áhrif þess að beita sig hörku annars vegar og umhyggju hins vegar í erfiðum aðstæðum. Þátttakendur fá heimaverkefni til þess að vinna milli tíma en þau dýpka skilning á efninu og gefa þátttakendum færi á því að rækta með sér umhyggju í eigin garð. 

Ávinningur
Þegar við gerum mistök eða göngum í gegnum erfitt tímabil eigum við það til að sýna okkur mun meiri hörku en við myndum sýna ástvini í sömu stöðu. Við gagnrýnum okkur oft harkalega - okkur finnst kannski að við hefðum mátt gera betur og tölum jafnvel fjandsamlega við okkur í huganum. En er þetta viðmót gagnlegt? Knýr þetta okkur til þess að gera betur næst? Rannsóknir benda til þess að harka í eigin garð sé ekki bara gagnslaus heldur einnig að hún geti dregið úr líkum á því að við náum árangri. Það að sýna sér umhyggju og hlýju er vænlegra til vinnings auk þess sem það stuðlar að aukinni andlegri vellíðan.

Sendu tölvupóst á helga@andlegheilsa.is til að skrá þig á námskeiðið.