ÆFINGAR

Jákvæð sálfræði er fræðigrein þar sem fengist er við rannsóknir á hamingju og andlegri vellíðan fólks. Út frá þessum rannsóknum hafa verið þróaðar æfingar sem miða að því að auka andlega vellíðan þeirra sem þær stunda. Hér að neðan má sjá nokkrar æfingar sem reynst hafa gagnlegar.

 

3 góðir hlutir

Í lok hvers dags rifjar þú upp 3 góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn. Sýnt hefur verið fram á árangur af þessari æfingu eftir aðeins eina viku en það er þó mælt með því að gera hana í 3 vikur eða lengur. 

Þakklætisbréf

Gefðu þér 15-20 mínútur í þessa æfingu. Líttu til baka yfir farinn veg og leiddu hugann að því fólki sem þér finnst hafa haft jákvæð áhrif á líf þitt. Veldu þér eina mannsekju sem þér finnst hafa haft mikilvæg jákvæð áhrif á líf þitt. Skrifaðu þakkarbréf til viðkomandi, þar sem þú útskýrir fyrir honum/henni hvað það var sem hann/hún gerði fyrir þig og lýstu hvernig það hafði áhrif á líf þitt og þakkaðu viðkomandi fyrir þessi jákvæðu áhrif. 
Það er ekki nauðsynlegt að senda viðkomandi bréfið en áhrifin verða enn sterkari þegar það er gert. Þú gætir líka sent það í tölvupósti eða jafnvel mætt heim til viðkomandi og lesið bréfið fyrir hann/hana. Ég hvet þig til þess að koma þakkarbréfinu til skila, því þú getur rétt ímyndað þér hvað það er gaman fyrir viðkomandi að fá svona bréf. 

Hugleiðsla

Í appinu Happ app er að finna 4 núvitundaræfingar þar sem rödd Bryndísar Jónu Jónsdóttur leiðir okkur í gegnum núvitundaræfingar. Æfingarnar eru frekar stuttar og henta byrjendum vel. Hér að neðan er ein hugleiðsluæfing sem hjálpar okkur að rækta með okkur velvild í eigin garð. 

 

TILVILJANAKENND GÓÐVERK

Veldu einn dag í viku til þess að gera 5 góðverk yfir daginn. Það getur verið gott að ákveða fyrirfram einhver góðverk sem maður ætlar að gera en líka að vera vakandi fyrir því að grípa tækifærin til þess að gera góðverk þegar þau gefast. Hér að neðan er listi yfir góðverk sem hægt er að gera. 

 • Færa samstarfsmanni drykk (kaffi, te, vatn,...).
 • Senda vini eða kunningja fallegan tölvupóst. Hann gæti innihaldið hrós, vingjarnlega kveðju, brandara o.s.frv.
 • Bjóða ókunnugum góðan dag.
 • Týna upp rusl og setja í ruslafötu.
 • Borga tebolla/kaffibolla fyrir næsta viðskiptavin á kaffihúsinu.
 • Færa nágranna bakkelsi eða mat.
 • Bjóða vin eða vinkonu í bíó.
 • Kaupa litla gjöf handa vini eða vandamanni.
 • Benda einhverjum á styrkleika sem þú sérð í fari hans. 
 • Klappa ketti. 
 • Hleypa einhverjum framfyrir sig í röð.
 • Bjóða fram aðstoð, þegar einhver virðist þurfa á henni að halda.
 • Skrifa falleg skilaboð til vinnufélaga eða sambýlisfólks.