Hvað er það besta við þig?

Mig langar til þess að bjóða þér að gera smá tilraun með mér. Veldu eina manneskju sem þér þykir vænt um og kallaðu fram mynd af henni í huga þér. Leiddu nú hugann að því hvað þér finnst vera það besta við þessa manneskju… hvað er það við persónuleika hennar sem fær þig til að brosa og finna fyrir hlýju í hjartanu? Gefðu þér nokkrar sekúndur í þetta og lokaðu augunum ef það hjálpar.

Það sem kom upp í huga þér eru helsu styrkleikarnir sem þú sérð í þessari manneskju, það fallega og góða við hana.

Styrkleikar felast ekki bara í því sem við erum góð í að gera, þeir eru líka það fallega og góða sem einkennir persónuleika okkar og það sem við höfum að gefa heiminum. Hér eru dæmi um nokkra slíka styrkleika:

  • Hrifnæmi – að taka eftir og meta fegurðina í kringum okkur.
  • Kærleikur – að eiga auðvelt með að finna fyrir kærleika og sýna fólkinu í kringum okkur umhyggju.
  • Hugrekki – að ögra okkur sjálfum og stíga oft út fyrir þægindarammann.
  • Staðfesta – að halda áfram þótt á móti blási og gefast ekki upp eftir mistök.
  • Sköpunargleði – að vera hugmyndaríkur, finna mismunandi leiðir til að leysa ýmis verkefni og skapa hvað sem er eins og tónlist, ljóð, matrétti eða fallegt umhverfi á heimilinu eða í vinnunni.

Hverjir eru helstu styrkleikar þínir? Hvað er það besta og fallegasta við persónuleika þinn?

Það reynist mörgum okkar mun erfiðara að sjá það jákvæða í eigin fari en í fari fólksins í kringum okkur því við eigum það til að beina athygli okkar meira að því sem okkur finnst ama að hjá okkur og við viljum breyta og bæta.

Það er stór munur á því að greina það sem er að og vinna í því að bæta það en að greina það sem gengur vel og nýta það og efla enn frekar. Við verðum ekki besta útgáfan af okkur með því að verða skárri í því sem við erum léleg í, við verðum það með því að greina það jákvæða og fallega við okkur og finna leiðir til þess að færa það inn í allt sem við gerum.

Hvernig greinum við styrkleika?

SPYRJA FÓLKIÐ OKKAR

Það eru til ýmsar leiðir til þess að átta sig á helstu styrkleikum sínum. Ein einföld leið er að spyrja einfaldlega þá sem þekkja okkur best hvaða styrkleika þeir sjá helst í okkur, því þeir eiga oft mun auðveldara með að koma auga á þá en við sjálf. Svo finnst fólkinu okkar yfirleitt bara gaman að fá tækifæri til þess að deila því með okkur sem þeim finnst vera fallegt og gott við okkur, svo ekki vera feimin við að spyrja.

STYRKLEIKAPRÓF

Á undanförnum 15 árum hefur rannsóknum á styrkleikum fjölgað mikið og þróuð hafa verið ýmis styrkleikapróf eins og VIA-character, Strenghtsfinder, Realize 2 og fleiri sem flest er hægt að taka á netinu.

META SJÁLF
Önnur aðferð sem við getum notað er að fylgjast með okkur sjálfum og kanna við hvaða aðstæður við erum uppá okkar besta, því þegar við notum kjarna-styrkleika okkar, finnum við gjarnan fyrir aukinni orku, gleði og tilgangi. Þú getur til dæmis rifjað upp minningu um atburð þar sem þú varst í algjörlega í essinu þínu og velt því fyrir þér hvaða styrkleika þú varst að nota í þá.

SÉRFRÆÐINGAR

Aukin meðvitund um mikilvægi þess að greina og vinna með styrkleika hefur leitt til þess að nú eru ýmis námskeið og vinnustofur í boði þar sem fólki gefst tækifæri til að vinna með styrkleika sína með leiðbeinendum sem hafa sérhæft sig í styrkleikavinnu.

Hvað segja rannsóknir um styrkleika og áhrif þess að vinna með þá?

Styrkleikagreining

Rannsóknir benda til þess að það eitt að taka styrkleikapróf og greina þannig helstu styrkleika sína eykur andlega vellíðan og hamingju til skamms tíma. Það kemur ekki á óvart því við erum þá í raun að beina sjónum okkar að því fallega og góða sem einkennir persónuleika okkar og gengur vel hjá okkur.

Að nota helstu styrkleika

Daglegt líf og heilsa

Þegar við höfum greint helstu styrkleika okkar getum við farið að nota þá á markvissan hátt í daglegu lífi en það stuðlar að ávinningi til lengri tíma. Rannsóknir sýna að það að nota helstu styrkleika í daglegu lífi stuðlar að aukinni vellíðan, hamingju og sátt með lífið auk þess sem við finnum gjarnan fyrir aukinni orku. Það getur líka dregið úr einkennum þunglyndis og streitu og haft þannig jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu okkar.

Þegar við náum að tengja helstu styrkleika okkar við líkamlega hreyfingu, aukast líkur á að við höldum okkur við hreyfinguna og við höfum frekar ánægju af henni sem stuðlar líka að heilsueflingu.

Vinna og skóli

Rannsóknir benda til þess að þegar við náum að nýta helstu styrkleika okkar í vinnunni förum við að upplifa aukna starfsánægju og getum fundið fyrir meiri tilgangi með vinnunni okkar. Að nýta styrkeika bæði í vinnu og skóla getur leitt til bættrar frammistöðu. Þegar við hjálpum börnunum okkar að koma auga á styrkleikana sína (því sem gefur þeim orku og gleði) og gefum þeim tækifæri til þess að nýta þá, stuðlar það að aukinni andlegri vellíðan hjá þeim og getur eflt sjálfsmynd þeirra.

Þegar við greinum helstu styrkleika okkar og finnum leiðir til þess að nota þá meira í daglegu lífi, erum við í raun að færa það jákvæða og fallega við persónuleika okkar inn í lífið og allt sem við gerum. Það stuðlar svo að aukinni vellíðan og getur hjálpað okkur að finna fyrir meiri orku og sátt með lífið.

Að lokum langar mig að biðja þig um að leiða hugann aftur að manneskjunni sem þú hugsaðir til í upphafi greinarinnar og rifja upp þá styrkleika sem þú sást í henni. Ef þig langar til að gleðja hana gætir þú sent henni tölvupóst eða skilaboð og sagt henni frá þessum fallegu eiginleikum sem þú sérð í fari hennar. Það gæti krafist smá hugrekkis af þinni hálfu en það myndi án efa gleðja viðkomandi mikið.